Af tekjujöfnuði sem mælieiningu

Sumum er það í blóð borið að vilja lýsa öllu með tölum, okkur hinum til skemmtunar og fróðleiks.  Í hugum sumra er hægt að taka mannlífið í allri sinni fjölbreytni, flokka það niður í tölulega flokka og benda á það máli sínu til stuðnings.  Yfirleitt til þess að sýna fram á að mannlífið sé á einhvern hátt á rangri braut.  Stundum meikar þetta sens, stundum ekki.

Gott dæmi um þetta eru mælikvarðar á jöfnuð í samfélaginu.  Samfélögum er hampað fyrir að hafa sem styst bil milli þess ríkasta og þess fátækasta, en það skiptir engu máli hvort þeir hafi það allir skítt eða allir gott – á meðan þeir eru jafnir.

Jafnaðarmenn hafa oft talað gegn gróðahyggju samfélagsins og talað gegn auðvaldinu svokallaða, sem þykir ekkert skemmtilegra en að sanka til sín auðævum.  Oftast er þessi meinta auðsöfnun á kostnað öryrkja, kvenna, samkynhneigðra, atvinnulausra, verkamanna eða annarra hópa sem viðkomandi jafnaðarmaður telur til olnbogabarna samfélagsins.

Þetta kemur mörgum auðvitað spánskt fyrir sjónir, því að enginn hópur hugsar meira um peninga en einmitt jafnaðarmenn.  Það má í raun segja að heimsmynd þeirra snúist um peninga og önnur efnisleg verðmæti.  Boðskapurinn snýst um að peningar séu helsti mælikvarðinn á samfélag og afar mikilvægt sé að ef einhver er öðruvísi en annar skuli það “jafnað” með því að færa verðmæti frá þeim sem á meira til þess sem á minna.

Það sem jafnaðarmenn gleyma gjarnan í peningadreifingu sinni er að það eru mun fleiri mælikvarðar á mannkosti og lífsgæði en peningar.  Góður maður sagði mér einu sinni að mannfólk væri ekki eins og kókflöskur, steyptar í sama mót.  Hann hitti naglann á höfuðið.

Mannlífið er fjölbreytt.  Allir hafa sína styrkleika og sína veikleika.  Allir geta og eiga að skilgreina sín markmið og reyna að fá það úr lífinu sem gleður þá.  Hvort sem það eru peningar, ferðalög, listsköpun, virðing eða aðdáun samfélagsins, starfsánægja, o.s.frv.

Að reyna að handstýra einum þætti samfélagsins, tekjum, þannig að allir eigi að vera eins, er firra.  Þeir sem það styðja loka augunum gjörsamlega fyrir því að í fyrsta lagi er fólk ekki eins og kókflöskur og í öðru lagi skiptir margt fleira máli en peningar.

This entry was posted in Pólitík. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>