Opið bréf til þingmanna varðandi heildrænar meðferðir

Þessa grein sendi ég á Fréttablaðið til birtingar í dag.

Ágætu þingmenn Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Álfheiður Ingadóttir,

Ég vil byrja á að fagna áhuganum sem þið sýnið heildrænum meðferðum með þingsályktunartillögu ykkar, sem lesa má í þingskjali 566, 452. máli á yfirstandandi þingi, 141. löggjafarþingi 2012-2013.

Það er svo sannarlega kominn tími til þess að auka vitund og virðingu samfélagsins fyrir heildrænni meðferð við hinum ýmsu kvillum.  Sú hugmynd að meginþorra heilsuvandamála þeirra, er mannfólk hrjáir, megi einangra niður á einhverja mekaník og meðhöndla með einni góðri pillu eða sambærilegu hefur fyrir löngu gengið sér til húðar.

Að ofangreindu sögðu vil ég þó leggja til að farin verði önnur leið í þessu máli en þið leggið til.  Ég vil nota þetta bréf til þess að lýsa þeirri heildrænu meðferð sem heilbrigðiskerfið veitir.

Þriðjungur til helmingur koma til lækna eru vegna vandamála af andlegum toga

Lög um heilbrigðisþjónustu taka fram að heilbrigðisþjónustan sé til þess að annast líkamlega, andlega og félagslega heilsu skjólstæðinga sinna.  Þessi setning summar ágætlega upp þjónustuna.  Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim vandamálum sem fólk ber undir lækna.  Einhverja kann að undra, en þær sýna að stór hluti þeirra snýr að sálarlífinu.  Menntun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks er því, eðlilega, afar miðuð að því að geta hlúð að andlegri heilsu skjólstæðinga sinna.

Læknar veita oft í störfum sínum meðferðir sem snúast eingöngu um að hlusta og sýna vandamálum fólks skilning.  Margoft hef ég sjálfur veitt og enn oftar séð aðra veita meðferð sem felst einkum í ráðleggingum frekar en inngripum eða lyfjum.  Margar stéttir lækna hafa mikla menntun og reynslu í samtalsmeðferðum og hinum ýmsu gerðum aðhlynningar blandaðra andlegra, líkamlegra og félagslegra vandamála.  Hér má að öðrum ólöstuðum nefna sérstaklega heimilislækna, krabbameinslækna, öldrunarlækna og geðlækna.

En vilja þessir læknar ekki bara gefa manni pillur?

Læknar hafa margt fleira í boði en lyf.  Afar oft felst læknismeðferð í næringaráðgjöf, hvatningu, eftirfylgd og fleiru af því tagi, að því ógleymdu einfaldlega þegar ráðleggingin er að bíða og láta líkamann laga þetta sjálfan.  Auk þess er heilbrigðiskerfið miklu meira en bara læknar.  Innan heilbrigðiskerfisins starfa margar ólíkar fagstéttir sem vinna saman að því markmiði að hlúa að, sem fyrr segir, líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð skjólstæðinga sinna.

Hjúkrunarfræðingar hafa fyrir löngu unnið sér fastan sess í vitund fólks með alúð sinni, hlýlegri aðhlynningu á erfiðum stundum og einstaklingsbundinni nálgun á vandamál sem hafa gefið fólki með hin ýmsu vandamál kost á að lifa lífi sínu á sínum forsendum, með sína reisn og virðingu og við eins mikil þægindi og framast er unnt.

Sálfræðingar hafa lengi verið til staðar og styrkjast stöðugt.  Með sífelldri þróun á meðferðarúrræðum og greiningum hafa þeir tryggt stöðu sína í framlínu heilbrigðiskerfisins þegar kemur að andlegri vanlíðan.

Félagsráðgjafar eru heil háskólastétt fólks sem sérhæfir sig í að meta þarfir og vilja fólks í úrræðum og stuðningi við að lifa lífi sínu áfram á sínum forsendum þrátt fyrir veikindi.  Þeir sjá út hvaða hjálp er hægt að veita eldra fólki til þess að það geti áfram búið heima, hvaða stuðning fatlaðir og fjölskyldur þeirra þurfa, o.s.frv.

Sjúkraþjálfarar eru gífurlega mikilvæg stétt sem sérhæfir sig m.a. í stoðkerfisvandamálum og veitir meðferðir, ráðleggingar og aðra aðstoð við endurhæfingu, styrkingu, uppbyggingu og fleira, bæði hvað varðar vöðva og bein, en einnig hjarta, lungu og fleira.

Læknar leiða gjarnan teymisvinnuna, greina vandamál sjúklingsins, kalla inn samstarfsfólk sitt úr öðrum stéttum þegar þarf og stjórna meðferðinni.

Hér mætti lengi halda áfram að telja stéttir innan heilbrigðiskerfisins, en það yrði of langt.  Útgangspunkturinn er að heilbrigðiskerfið er samansett úr ólíkum fagstéttum sem skarast verulega, en eru hver um sig vel menntaður hópur sem veitir fjölbreytilega þjónustu í átt að sameiginlegu markmiði.

Hefðbundin heilbrigðisþjónusta er bara föst í gömlum bókum og vill ekki hleypa inn nýjum aðferðum!

Þetta er alrangt.  Á síðustu áratugum hafa margar nýjar stéttir bæst við með aðferðafræði afar frábrugðna þeim sem fyrir voru.  Hér nægir að nefna félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og fleiri.  Bæði “nýju” stéttirnar og þær “gömlu” brydda svo sífellt upp á einhverju nýju.  Kenningar og aðferðir breytast í takt við nýja þekkingu.  Sálfræðingar komu sterkir inn með hugræna atferlismeðferð (HAM), sönnuðu rækilega að hún virkar og unnu henni fljótlega mjög sterkan sess innan kerfisins.  Fjölskylduhjúkrun er spennandi svið sem mikið er talað og skrifað um þessa dagana.  Annað sem er afar spennandi er meðferð lífstílssjúkdóma hjá næringarfræðingum, íþróttafræðingum og sjúkraþjálfurum í samstarfi við lækna.

Vafalítið munum við halda áfram að sjá fleiri heilbrigðisstéttir með nýjar og spennandi nálganir.  Þær stéttir sem fyrir eru taka slíkum nýjungum áfram með opnum örmum, eins og verið hefur; ef nýjungarnar geta aðeins sýnt fram á öryggi sitt og notagildi á vísindalegan hátt.

En hvað getum við þá gert til að bæta þjónustuna?

Því skal alls ekki neitað að margt þarf að gera til að bæta heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Í fyrsta lagi þarf að efla frumheilsugæslu.  Þegar þessar línur eru skrifaðar eru 50 þúsund Íslendingar án heimilislæknis.  Efla þarf verulega þátttöku hins opinbera í kostnaði við aðra heilbrigðisþjónustu en þá sem veitt er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.  Hér ber einna helst að nefna þá góðu þjónustu sem sjúkraþjálfarar, sálfræðingar og tannlæknar veita.  Sjúkrahúsin eru undirmönnuð og reiða sig á gjafafé til að útvega sér límband á tæki sem eru að hruni komin.

Það sem á ekki að gera er að trana fram aðferðum sem ekki hafa sýnt fram á gildi sitt nema síður sé, svokallaðra græðara.

This entry was posted in Pólitík. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>