Ég og frændi minn

Um daginn heyrði ég af ungum strák í fjölskyldunni.  Hann var að klára grunnskólann og fékk strax flotta vinnu.  Lyftaramaður í fiskiðju.  Fær 200 þúsund kall á mánuði.

Nú er ég dyggur lesandi Stefáns Ólafssonar og svipaðra stórmenna og hnýt því strax um ójöfnuð þegar ég sé hann.  Ég sé langar leiðir að launin mín eru hærri en þessa unga, duglega manns.  Slíkur ójöfnuður stingur í augun.

Ég var nefnilega að útskrifast sem læknir.  Miðað við að farin sé hefðbundin leið að því marki þýðir það fjögur ár í menntaskóla og síðan sex ár í háskóla.  Að því loknu er svo kandídatsár, sem er launuð starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum, og síðan starfsþjálfun í 5-10 ár í þeirri grein læknisfræðinnar sem maður hyggst stunda.

Sem stendur er ég búinn með stúdentspróf (4 ár), læknadeild (6 ár) og hálfnaður með kandídatsárið mitt.  Launin mín eru 330.009 krónur á mánuði.  Ég er sáttur við það, því að þegar ég lýk þessu öllu, eftir 7-8 ár, hækka þau í 513.856 kr. á mánuði.  Það verða laun mín sem sérfræðilæknir eftir alls 18 ár af námi á bakinu eftir grunnskólann.

Nærtækasta spurningin er auðvitað þessi: Hvað er það sem gerir mig, eftir 8 ár, svona fjandi merkilegan að ég eigi skilið næstum þreföld laun á við frænda?

Einhverjir gætu reyndar sagt að þetta skipti engu máli, því að frændi borgar minni skatt (29.680 kr.), en ég mun borga 155.106 krónur í skatt, verandi einn af þessum skítugu hátekjumönnum.  Ég mun því enda með 358.750 kr. eftir skatt, en hann 170.320 kr.  Ég anda vissulega eilítið léttar eftir þessa útreikninga, ég enda með tvöföld laun á við frænda, ekki þreföld.  Hjúkk.

Að vísu tökum við báðir á okkur auka vinnu.  Hann fær öðru hverju yfirvinnu í fiskiðjunni og svo eru uppgrip þegar þarf að landa úr bátunum, gjarnan seint á kvöldin.  Auk þess tekur hann að sér dyravörslu um helgar.  Ég tek að mér lækningar á vöktum allan sólarhringinn, um helgar og á stórhátíðum.  Báðir hækkum við kaupið töluvert á þessu, en til að einfalda útreikningana skulum við sleppa þeim sálmum – enda hlutfallslega svipaðir.

Meiri útreikningar.  Það sem ég hef framyfir frænda í launum frá því að ég útskrifast úr læknadeild og þar til ég klára sérnámið dugar ekki fyrir námslánunum mínum.  En við skulum í þykjó hafa það þannig.  Til að einfalda.  Þá skulum við segja að ég byrji á núlli (I wish) eftir sérnámið.  Þá hefur frændi verið að þéna sinn 170.320 á mánuði, en ég núll, í 10 ár (menntaskóli+læknadeild), en við verið jafnir síðan ég kláraði læknadeild.  Hann hefur því þénað um tuttugu og hálfri milljón meira en ég (20.438.400).

En nú er ég hátekjubísi.  Nú verður þetta jafnað.  Á níu árum næ ég honum.  Níu stutt ár.  Þá verðum við 43 ára.

Aftur örvænti ég.  Eftir 43 ára sigli ég jafnt og þétt framúr frænda…eins og arðrænandi auðvald.  En sem betur fer hefur stjórnin fundið lausn á því.  Nú fer ég bara að keyra of hratt.

This entry was posted in Pólitík. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>