Stjórnarskráin og vilji þjóðarinnar II

Í fyrri pistli fór ég aðeins yfir tilurð og tilgang stjórnarskráa, mjög stutt yfir sögu þeirrar íslensku og minntist í lokin á mína skoðun á því hvernig framtíð hennar ætti að verða.  Í þessum pistli mun ég fara yfir ferlið sem kosið verður um 20. október n.k.

Fljótlega eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við í byrjun árs 2009 fór Jóhanna að kalla eftir stjórnlagaþingi.  Hér átti hún við þing þar sem fulltrúar almennings kæmu saman, eldheitir líkt og í frönsku eða amerísku byltingunum, og skrifuðu upp stjórnarskrá fólksins.  Þetta kom ekki tiltakanlega á óvart, því að Jóhanna hefur barist fyrir þessu síðan um 1990.

Fljótlega kom í ljós, sem vitað var, að almenningur hafði lítinn eða engan áhuga á nýrri stjórnarskrá.  Vandræðalegt.  Jóhanna hefði þó kannski mátt segja sér þetta sjálf, hafandi barist fyrir þessu í 20 ár án þess að fá neinar undirtektir.

Fyrst var haldinn Þjóðfundur.  Þúsund manns mættu í Laugardalshöll og úr því komu stikkorð sem túlka mátti eftir vild.  Þetta kostaði marga peninga.  Næst voru haldnar kosningar til Stjórnlagaþings.  Þær komu dálítið út eins og partí heima hjá óvinsæla krakkanum.  Tveir þriðju Íslendinga hundsuðu kosningarnar einfaldlega.  Í lok partísins kom svo löggan í formi Hæstarétts, lokaði húsinu og henti öllum út, þar sem kosningaframkvæmdin var svo klúðursleg að það þurfti að ógilda allar niðurstöður.

Jóhanna gafst ekki upp.  Vilji almennings og þorsti eftir nýrri stjórnarskrá skyldi ná fram að ganga!  Hún ákvað að í stað stjórnlagaþings skyldi koma stjórnlagaráð.  Enn ein ríkisnefndin, óvenju stór í þetta skiptið, sem myndi skrifa nýja stjórnarskrá.  Jóhanna tók svo gölluðu niðurstöðurnar úr óvinsæla partíinu og skipaði fólkið þaðan í stjórnlagaráð.

Stjórnlagaráð sat á rökstólum lengi.  Raunar framyfir öll tímamörk.  Á þessum tíma sendu þeir frá sér alls konar yfirlýsingar um allt og ekkert, bæði stjórnarskrármálefni og aðra, alls óskylda hluti.

Íslensku þjóðinni var sléttsama, enda upptekin við annað.

Að lokum komu drög að nýrri stjórnarskrá.  Drögin komu á óvart.  Í stað þess að fram kæmi ný uppskrift að stjórnskipan Íslands var hún að mestu látin í friði bara.  Í staðinn höfðu stjórnlagaráðsfulltrúar notað tækifærið og litið á drögin sem sitt persónulega krassblað.  Notuðu tækifærið og tóku sér löggjafarvald í leiðinni og settu inn allt draslið sem almenningur hefur hafnað í þingkosningum síðustu 20-30 ár.  Allskonar ákvæði um auðlindanýtingu, færslu á eignum frá almenningi til ríkisins, o.s.frv.

Sýnum vilja okkar í kosningunum 20. okt.  Annað hvort skulum við hundsa þær, eða mæta og svara fyrstu spurningunni (Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði notaðar sem drög að nýrri stjórnarskrá?) neitandi – og hundsa hinar.

Þegar kemur að því að endurskoða stjórnarskránna ætti að nást víðtæk samstaða um meginlínu og hana ætti síðan að útfæra af til þess bæru fólki, ekki samasafni kverúlanta sem í ofboði reynir að troða þessu í gegn áður en þjóðin hendir þeim öllum út í næstu kosningum.

This entry was posted in Pólitík. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>