Stjórnarskráin og vilji þjóðarinnar I

Þessa stundina fer óvenju mikið fyrir umræðu um stjórnarskrá Íslands.  Óvenju mikið meinandi meira en allra jafna, en alls ekki meira en eðlilegt væri.  Stjórnarskráin er það skjal sem skilgreinir stjórnarfar á litlu eyjunni okkar og nú stendur til að breyta henni.

Fyrstu stjórnarskrárnar voru skrifaðar til þess að takmarka vald einvalds, yfirleitt konungs.  Magna Carta er sennilega fyrsti vísirinn, skrifuð 1215, en á raunar ættir að rekja í eldri yfirlýsingu frá því um aldamótin 1100.  Magna Carta var einfaldlega skjal sem konungurinn undirritaði (John I, bróðir Ríkharðs ljónshjarta) þar sem hann takmarkaði vald sitt til þess að refsa mönnum án dóms og laga, o.s.frv.

Síðarmeir, eftir amerísku byltinguna og á miklum breytingartímum á 18. og 19. öld, urðu stjórnarskrár tæki til þess að takmarka einvaldinn enn meira og skilgreina nýja skipan í því hvernig samfélaginu væri stjórnað.

Á Íslandi þróaðist þetta svipað og annarsstaðar, Kristján IX færði okkur stjórnarskrá árið 1875 þar sem Alþingi fékk löggjafarvald, framkvæmdavaldið var áfram hjá konungi, en dómsvaldið var í höndum dómara sem skipaðir voru af Alþingi og konungi í sameiningu.

Þróunin hélt áfram, vald konungs var takmarkað enn meira og að lokum enduðu mál þannig að framkvæmdavald er í höndum ríkisstjórnar sem kosin er af Alþingi.  Sú skipan er svo við lýði í dag að meirihlutinn á Alþingi setur lög, fer með framkvæmdavald sem ríkisstjórn og skipar dómara í hlutverki sínu sem ráðherra OG Alþingi.

Ljóst er að ekki verður við þetta unað.  Sagan sýnir okkur að spilling dafnar í þessu umhverfi, þar sem fámennur hópur, jafnvel einstaklingur, hefur öll völd í samfélaginu.  Eina leiðin til þess að breyta þessu er að innleiða kerfi þar sem almenningur kýs Alþingi áfram eins og nú er, en bæta því við að ríkisstjórnin er einnig kosin beint.  Annað hvort sem hópur eða einfaldlega að kjósa einstakling sem síðan skipar með sér ráðherra í ríkisstjórn.

Aðeins þannig getum við aukið líkurnar á því að enginn einn ráði öllu.  Þeir sömu eiga ekki að ráða á Alþingi og í ríkisstjórn.

Næsta grein mun svo fjalla um núverandi tilraunir til breytinga á stjórnarskrá.

 

This entry was posted in Pólitík. Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>