Opið bréf til þingmanna varðandi heildrænar meðferðir

Þessa grein sendi ég á Fréttablaðið til birtingar í dag.

Ágætu þingmenn Guðrún Erlingsdóttir, Bjarkey Gunnarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir og Álfheiður Ingadóttir,

Ég vil byrja á að fagna áhuganum sem þið sýnið heildrænum meðferðum með þingsályktunartillögu ykkar, sem lesa má í þingskjali 566, 452. máli á yfirstandandi þingi, 141. löggjafarþingi 2012-2013.

Það er svo sannarlega kominn tími til þess að auka vitund og virðingu samfélagsins fyrir heildrænni meðferð við hinum ýmsu kvillum.  Sú hugmynd að meginþorra heilsuvandamála þeirra, er mannfólk hrjáir, megi einangra niður á einhverja mekaník og meðhöndla með einni góðri pillu eða sambærilegu hefur fyrir löngu gengið sér til húðar.

Að ofangreindu sögðu vil ég þó leggja til að farin verði önnur leið í þessu máli en þið leggið til.  Ég vil nota þetta bréf til þess að lýsa þeirri heildrænu meðferð sem heilbrigðiskerfið veitir.

Þriðjungur til helmingur koma til lækna eru vegna vandamála af andlegum toga

Lög um heilbrigðisþjónustu taka fram að heilbrigðisþjónustan sé til þess að annast líkamlega, andlega og félagslega heilsu skjólstæðinga sinna.  Þessi setning summar ágætlega upp þjónustuna.  Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim vandamálum sem fólk ber undir lækna.  Einhverja kann að undra, en þær sýna að stór hluti þeirra snýr að sálarlífinu.  Menntun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks er því, eðlilega, afar miðuð að því að geta hlúð að andlegri heilsu skjólstæðinga sinna.

Læknar veita oft í störfum sínum meðferðir sem snúast eingöngu um að hlusta og sýna vandamálum fólks skilning.  Margoft hef ég sjálfur veitt og enn oftar séð aðra veita meðferð sem felst einkum í ráðleggingum frekar en inngripum eða lyfjum.  Margar stéttir lækna hafa mikla menntun og reynslu í samtalsmeðferðum og hinum ýmsu gerðum aðhlynningar blandaðra andlegra, líkamlegra og félagslegra vandamála.  Hér má að öðrum ólöstuðum nefna sérstaklega heimilislækna, krabbameinslækna, öldrunarlækna og geðlækna.

En vilja þessir læknar ekki bara gefa manni pillur?

Læknar hafa margt fleira í boði en lyf.  Afar oft felst læknismeðferð í næringaráðgjöf, hvatningu, eftirfylgd og fleiru af því tagi, að því ógleymdu einfaldlega þegar ráðleggingin er að bíða og láta líkamann laga þetta sjálfan.  Auk þess er heilbrigðiskerfið miklu meira en bara læknar.  Innan heilbrigðiskerfisins starfa margar ólíkar fagstéttir sem vinna saman að því markmiði að hlúa að, sem fyrr segir, líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð skjólstæðinga sinna.

Hjúkrunarfræðingar hafa fyrir löngu unnið sér fastan sess í vitund fólks með alúð sinni, hlýlegri aðhlynningu á erfiðum stundum og einstaklingsbundinni nálgun á vandamál sem hafa gefið fólki með hin ýmsu vandamál kost á að lifa lífi sínu á sínum forsendum, með sína reisn og virðingu og við eins mikil þægindi og framast er unnt.

Sálfræðingar hafa lengi verið til staðar og styrkjast stöðugt.  Með sífelldri þróun á meðferðarúrræðum og greiningum hafa þeir tryggt stöðu sína í framlínu heilbrigðiskerfisins þegar kemur að andlegri vanlíðan.

Félagsráðgjafar eru heil háskólastétt fólks sem sérhæfir sig í að meta þarfir og vilja fólks í úrræðum og stuðningi við að lifa lífi sínu áfram á sínum forsendum þrátt fyrir veikindi.  Þeir sjá út hvaða hjálp er hægt að veita eldra fólki til þess að það geti áfram búið heima, hvaða stuðning fatlaðir og fjölskyldur þeirra þurfa, o.s.frv.

Sjúkraþjálfarar eru gífurlega mikilvæg stétt sem sérhæfir sig m.a. í stoðkerfisvandamálum og veitir meðferðir, ráðleggingar og aðra aðstoð við endurhæfingu, styrkingu, uppbyggingu og fleira, bæði hvað varðar vöðva og bein, en einnig hjarta, lungu og fleira.

Læknar leiða gjarnan teymisvinnuna, greina vandamál sjúklingsins, kalla inn samstarfsfólk sitt úr öðrum stéttum þegar þarf og stjórna meðferðinni.

Hér mætti lengi halda áfram að telja stéttir innan heilbrigðiskerfisins, en það yrði of langt.  Útgangspunkturinn er að heilbrigðiskerfið er samansett úr ólíkum fagstéttum sem skarast verulega, en eru hver um sig vel menntaður hópur sem veitir fjölbreytilega þjónustu í átt að sameiginlegu markmiði.

Hefðbundin heilbrigðisþjónusta er bara föst í gömlum bókum og vill ekki hleypa inn nýjum aðferðum!

Þetta er alrangt.  Á síðustu áratugum hafa margar nýjar stéttir bæst við með aðferðafræði afar frábrugðna þeim sem fyrir voru.  Hér nægir að nefna félagsráðgjafa, iðjuþjálfa og fleiri.  Bæði “nýju” stéttirnar og þær “gömlu” brydda svo sífellt upp á einhverju nýju.  Kenningar og aðferðir breytast í takt við nýja þekkingu.  Sálfræðingar komu sterkir inn með hugræna atferlismeðferð (HAM), sönnuðu rækilega að hún virkar og unnu henni fljótlega mjög sterkan sess innan kerfisins.  Fjölskylduhjúkrun er spennandi svið sem mikið er talað og skrifað um þessa dagana.  Annað sem er afar spennandi er meðferð lífstílssjúkdóma hjá næringarfræðingum, íþróttafræðingum og sjúkraþjálfurum í samstarfi við lækna.

Vafalítið munum við halda áfram að sjá fleiri heilbrigðisstéttir með nýjar og spennandi nálganir.  Þær stéttir sem fyrir eru taka slíkum nýjungum áfram með opnum örmum, eins og verið hefur; ef nýjungarnar geta aðeins sýnt fram á öryggi sitt og notagildi á vísindalegan hátt.

En hvað getum við þá gert til að bæta þjónustuna?

Því skal alls ekki neitað að margt þarf að gera til að bæta heilbrigðisþjónustu á Íslandi.  Í fyrsta lagi þarf að efla frumheilsugæslu.  Þegar þessar línur eru skrifaðar eru 50 þúsund Íslendingar án heimilislæknis.  Efla þarf verulega þátttöku hins opinbera í kostnaði við aðra heilbrigðisþjónustu en þá sem veitt er á heilsugæslustöðvum og sjúkrahúsum.  Hér ber einna helst að nefna þá góðu þjónustu sem sjúkraþjálfarar, sálfræðingar og tannlæknar veita.  Sjúkrahúsin eru undirmönnuð og reiða sig á gjafafé til að útvega sér límband á tæki sem eru að hruni komin.

Það sem á ekki að gera er að trana fram aðferðum sem ekki hafa sýnt fram á gildi sitt nema síður sé, svokallaðra græðara.

Posted in Pólitík | Comments

Ég og frændi minn

Um daginn heyrði ég af ungum strák í fjölskyldunni.  Hann var að klára grunnskólann og fékk strax flotta vinnu.  Lyftaramaður í fiskiðju.  Fær 200 þúsund kall á mánuði.

Nú er ég dyggur lesandi Stefáns Ólafssonar og svipaðra stórmenna og hnýt því strax um ójöfnuð þegar ég sé hann.  Ég sé langar leiðir að launin mín eru hærri en þessa unga, duglega manns.  Slíkur ójöfnuður stingur í augun.

Ég var nefnilega að útskrifast sem læknir.  Miðað við að farin sé hefðbundin leið að því marki þýðir það fjögur ár í menntaskóla og síðan sex ár í háskóla.  Að því loknu er svo kandídatsár, sem er launuð starfsþjálfun á heilbrigðisstofnunum, og síðan starfsþjálfun í 5-10 ár í þeirri grein læknisfræðinnar sem maður hyggst stunda.

Sem stendur er ég búinn með stúdentspróf (4 ár), læknadeild (6 ár) og hálfnaður með kandídatsárið mitt.  Launin mín eru 330.009 krónur á mánuði.  Ég er sáttur við það, því að þegar ég lýk þessu öllu, eftir 7-8 ár, hækka þau í 513.856 kr. á mánuði.  Það verða laun mín sem sérfræðilæknir eftir alls 18 ár af námi á bakinu eftir grunnskólann.

Nærtækasta spurningin er auðvitað þessi: Hvað er það sem gerir mig, eftir 8 ár, svona fjandi merkilegan að ég eigi skilið næstum þreföld laun á við frænda?

Einhverjir gætu reyndar sagt að þetta skipti engu máli, því að frændi borgar minni skatt (29.680 kr.), en ég mun borga 155.106 krónur í skatt, verandi einn af þessum skítugu hátekjumönnum.  Ég mun því enda með 358.750 kr. eftir skatt, en hann 170.320 kr.  Ég anda vissulega eilítið léttar eftir þessa útreikninga, ég enda með tvöföld laun á við frænda, ekki þreföld.  Hjúkk.

Að vísu tökum við báðir á okkur auka vinnu.  Hann fær öðru hverju yfirvinnu í fiskiðjunni og svo eru uppgrip þegar þarf að landa úr bátunum, gjarnan seint á kvöldin.  Auk þess tekur hann að sér dyravörslu um helgar.  Ég tek að mér lækningar á vöktum allan sólarhringinn, um helgar og á stórhátíðum.  Báðir hækkum við kaupið töluvert á þessu, en til að einfalda útreikningana skulum við sleppa þeim sálmum – enda hlutfallslega svipaðir.

Meiri útreikningar.  Það sem ég hef framyfir frænda í launum frá því að ég útskrifast úr læknadeild og þar til ég klára sérnámið dugar ekki fyrir námslánunum mínum.  En við skulum í þykjó hafa það þannig.  Til að einfalda.  Þá skulum við segja að ég byrji á núlli (I wish) eftir sérnámið.  Þá hefur frændi verið að þéna sinn 170.320 á mánuði, en ég núll, í 10 ár (menntaskóli+læknadeild), en við verið jafnir síðan ég kláraði læknadeild.  Hann hefur því þénað um tuttugu og hálfri milljón meira en ég (20.438.400).

En nú er ég hátekjubísi.  Nú verður þetta jafnað.  Á níu árum næ ég honum.  Níu stutt ár.  Þá verðum við 43 ára.

Aftur örvænti ég.  Eftir 43 ára sigli ég jafnt og þétt framúr frænda…eins og arðrænandi auðvald.  En sem betur fer hefur stjórnin fundið lausn á því.  Nú fer ég bara að keyra of hratt.

Posted in Pólitík | Comments

Stjórnarskráin og vilji þjóðarinnar II

Í fyrri pistli fór ég aðeins yfir tilurð og tilgang stjórnarskráa, mjög stutt yfir sögu þeirrar íslensku og minntist í lokin á mína skoðun á því hvernig framtíð hennar ætti að verða.  Í þessum pistli mun ég fara yfir ferlið sem kosið verður um 20. október n.k.

Fljótlega eftir að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við í byrjun árs 2009 fór Jóhanna að kalla eftir stjórnlagaþingi.  Hér átti hún við þing þar sem fulltrúar almennings kæmu saman, eldheitir líkt og í frönsku eða amerísku byltingunum, og skrifuðu upp stjórnarskrá fólksins.  Þetta kom ekki tiltakanlega á óvart, því að Jóhanna hefur barist fyrir þessu síðan um 1990.

Fljótlega kom í ljós, sem vitað var, að almenningur hafði lítinn eða engan áhuga á nýrri stjórnarskrá.  Vandræðalegt.  Jóhanna hefði þó kannski mátt segja sér þetta sjálf, hafandi barist fyrir þessu í 20 ár án þess að fá neinar undirtektir.

Fyrst var haldinn Þjóðfundur.  Þúsund manns mættu í Laugardalshöll og úr því komu stikkorð sem túlka mátti eftir vild.  Þetta kostaði marga peninga.  Næst voru haldnar kosningar til Stjórnlagaþings.  Þær komu dálítið út eins og partí heima hjá óvinsæla krakkanum.  Tveir þriðju Íslendinga hundsuðu kosningarnar einfaldlega.  Í lok partísins kom svo löggan í formi Hæstarétts, lokaði húsinu og henti öllum út, þar sem kosningaframkvæmdin var svo klúðursleg að það þurfti að ógilda allar niðurstöður.

Jóhanna gafst ekki upp.  Vilji almennings og þorsti eftir nýrri stjórnarskrá skyldi ná fram að ganga!  Hún ákvað að í stað stjórnlagaþings skyldi koma stjórnlagaráð.  Enn ein ríkisnefndin, óvenju stór í þetta skiptið, sem myndi skrifa nýja stjórnarskrá.  Jóhanna tók svo gölluðu niðurstöðurnar úr óvinsæla partíinu og skipaði fólkið þaðan í stjórnlagaráð.

Stjórnlagaráð sat á rökstólum lengi.  Raunar framyfir öll tímamörk.  Á þessum tíma sendu þeir frá sér alls konar yfirlýsingar um allt og ekkert, bæði stjórnarskrármálefni og aðra, alls óskylda hluti.

Íslensku þjóðinni var sléttsama, enda upptekin við annað.

Að lokum komu drög að nýrri stjórnarskrá.  Drögin komu á óvart.  Í stað þess að fram kæmi ný uppskrift að stjórnskipan Íslands var hún að mestu látin í friði bara.  Í staðinn höfðu stjórnlagaráðsfulltrúar notað tækifærið og litið á drögin sem sitt persónulega krassblað.  Notuðu tækifærið og tóku sér löggjafarvald í leiðinni og settu inn allt draslið sem almenningur hefur hafnað í þingkosningum síðustu 20-30 ár.  Allskonar ákvæði um auðlindanýtingu, færslu á eignum frá almenningi til ríkisins, o.s.frv.

Sýnum vilja okkar í kosningunum 20. okt.  Annað hvort skulum við hundsa þær, eða mæta og svara fyrstu spurningunni (Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði notaðar sem drög að nýrri stjórnarskrá?) neitandi – og hundsa hinar.

Þegar kemur að því að endurskoða stjórnarskránna ætti að nást víðtæk samstaða um meginlínu og hana ætti síðan að útfæra af til þess bæru fólki, ekki samasafni kverúlanta sem í ofboði reynir að troða þessu í gegn áður en þjóðin hendir þeim öllum út í næstu kosningum.

Posted in Pólitík | Comments

Stjórnarskráin og vilji þjóðarinnar I

Þessa stundina fer óvenju mikið fyrir umræðu um stjórnarskrá Íslands.  Óvenju mikið meinandi meira en allra jafna, en alls ekki meira en eðlilegt væri.  Stjórnarskráin er það skjal sem skilgreinir stjórnarfar á litlu eyjunni okkar og nú stendur til að breyta henni.

Fyrstu stjórnarskrárnar voru skrifaðar til þess að takmarka vald einvalds, yfirleitt konungs.  Magna Carta er sennilega fyrsti vísirinn, skrifuð 1215, en á raunar ættir að rekja í eldri yfirlýsingu frá því um aldamótin 1100.  Magna Carta var einfaldlega skjal sem konungurinn undirritaði (John I, bróðir Ríkharðs ljónshjarta) þar sem hann takmarkaði vald sitt til þess að refsa mönnum án dóms og laga, o.s.frv.

Síðarmeir, eftir amerísku byltinguna og á miklum breytingartímum á 18. og 19. öld, urðu stjórnarskrár tæki til þess að takmarka einvaldinn enn meira og skilgreina nýja skipan í því hvernig samfélaginu væri stjórnað.

Á Íslandi þróaðist þetta svipað og annarsstaðar, Kristján IX færði okkur stjórnarskrá árið 1875 þar sem Alþingi fékk löggjafarvald, framkvæmdavaldið var áfram hjá konungi, en dómsvaldið var í höndum dómara sem skipaðir voru af Alþingi og konungi í sameiningu.

Þróunin hélt áfram, vald konungs var takmarkað enn meira og að lokum enduðu mál þannig að framkvæmdavald er í höndum ríkisstjórnar sem kosin er af Alþingi.  Sú skipan er svo við lýði í dag að meirihlutinn á Alþingi setur lög, fer með framkvæmdavald sem ríkisstjórn og skipar dómara í hlutverki sínu sem ráðherra OG Alþingi.

Ljóst er að ekki verður við þetta unað.  Sagan sýnir okkur að spilling dafnar í þessu umhverfi, þar sem fámennur hópur, jafnvel einstaklingur, hefur öll völd í samfélaginu.  Eina leiðin til þess að breyta þessu er að innleiða kerfi þar sem almenningur kýs Alþingi áfram eins og nú er, en bæta því við að ríkisstjórnin er einnig kosin beint.  Annað hvort sem hópur eða einfaldlega að kjósa einstakling sem síðan skipar með sér ráðherra í ríkisstjórn.

Aðeins þannig getum við aukið líkurnar á því að enginn einn ráði öllu.  Þeir sömu eiga ekki að ráða á Alþingi og í ríkisstjórn.

Næsta grein mun svo fjalla um núverandi tilraunir til breytinga á stjórnarskrá.

 

Posted in Pólitík | Comments

Af tekjujöfnuði sem mælieiningu

Sumum er það í blóð borið að vilja lýsa öllu með tölum, okkur hinum til skemmtunar og fróðleiks.  Í hugum sumra er hægt að taka mannlífið í allri sinni fjölbreytni, flokka það niður í tölulega flokka og benda á það máli sínu til stuðnings.  Yfirleitt til þess að sýna fram á að mannlífið sé á einhvern hátt á rangri braut.  Stundum meikar þetta sens, stundum ekki.

Gott dæmi um þetta eru mælikvarðar á jöfnuð í samfélaginu.  Samfélögum er hampað fyrir að hafa sem styst bil milli þess ríkasta og þess fátækasta, en það skiptir engu máli hvort þeir hafi það allir skítt eða allir gott – á meðan þeir eru jafnir.

Jafnaðarmenn hafa oft talað gegn gróðahyggju samfélagsins og talað gegn auðvaldinu svokallaða, sem þykir ekkert skemmtilegra en að sanka til sín auðævum.  Oftast er þessi meinta auðsöfnun á kostnað öryrkja, kvenna, samkynhneigðra, atvinnulausra, verkamanna eða annarra hópa sem viðkomandi jafnaðarmaður telur til olnbogabarna samfélagsins.

Þetta kemur mörgum auðvitað spánskt fyrir sjónir, því að enginn hópur hugsar meira um peninga en einmitt jafnaðarmenn.  Það má í raun segja að heimsmynd þeirra snúist um peninga og önnur efnisleg verðmæti.  Boðskapurinn snýst um að peningar séu helsti mælikvarðinn á samfélag og afar mikilvægt sé að ef einhver er öðruvísi en annar skuli það “jafnað” með því að færa verðmæti frá þeim sem á meira til þess sem á minna.

Það sem jafnaðarmenn gleyma gjarnan í peningadreifingu sinni er að það eru mun fleiri mælikvarðar á mannkosti og lífsgæði en peningar.  Góður maður sagði mér einu sinni að mannfólk væri ekki eins og kókflöskur, steyptar í sama mót.  Hann hitti naglann á höfuðið.

Mannlífið er fjölbreytt.  Allir hafa sína styrkleika og sína veikleika.  Allir geta og eiga að skilgreina sín markmið og reyna að fá það úr lífinu sem gleður þá.  Hvort sem það eru peningar, ferðalög, listsköpun, virðing eða aðdáun samfélagsins, starfsánægja, o.s.frv.

Að reyna að handstýra einum þætti samfélagsins, tekjum, þannig að allir eigi að vera eins, er firra.  Þeir sem það styðja loka augunum gjörsamlega fyrir því að í fyrsta lagi er fólk ekki eins og kókflöskur og í öðru lagi skiptir margt fleira máli en peningar.

Posted in Pólitík | Comments